Húsaleigusamningur

Húsaleigusamningur

H Ú S A L E I G U S A M N I N G U R
1. gr.
Aðilar að leigusamningi
Leigusali: Heimkynni ehf., kt. 530502-2280, Stigahlíð 59, Reykjavík.
Leigutaki:
2. gr.
Lýsing á leiguhúsnæði
Hin leigða íbúð á ___. hæð í fjölbýlishúsinu við Þórðarsveig 32 í Reykjavík, merkt _____. Nánar tiltekið er um að ræða____ herbergja íbúð , ásamt geymslu í kjallara og tilheyrandi hlutdeild í sameign hússins og lóð, samtals birt stærð___ m²..

3. gr.
Leigutími
Leigusamningur þessi er tímabundinn í 6 mánuði til reynslu og hefst hinn ____ 2010 og lýkur hinn _____ 2010. Að loknum hinum umsamda reynslutíma breytist samningurinn í ótímabundinn leigusamning nema leigusali ákveði annað m.a. í ljósi fenginnar reynslu af skilvísi og umgengni leigutaka.

4. gr.
Fjárhæð og greiðsla húsaleigu
Umsamin húsaleiga er kr. _________.- á mánuði og tekur leigufjárhæðin mið af vísitölu neysluverðs í júní 2010, sem er 363,8 stig, og breytist mánaðarlega í samræmi við breytingar á henni.

Leigan greiðist fyrirfram fyrir einn mánuð í senn og er gjalddagi hennar 1. dagur hvers mánaðar. Sé leigan ekki greidd á réttum gjalddaga reiknast á hana hæstu lögleyfðu dráttarvextir. Verði dráttur á greiðslu leigu mun lögfræðilegum innheimtuaðgerðum og riftunarúrræðum verða beitt strax og efni verða til

Leigan og hússjóðsframlag skv. 8. gr. verði greitt í gegnum greiðsluþjónustu. Brot á þessu varðar riftun á samningi.
5 . gr.
Ástand við afhendingu
Hin leigða íbúð er fullbúin með gólfefnum, innréttingum og skápum, , spegli og ljósakúpli á baðherbergi og gardínustöngum í herbergjum og er í fullkomnu ástandi og án nokkurra lýta og galla. Leigutaki hefur skoðað íbúðina rækilega og sættir hann sig við hana í hvívetna. Hafi hann einhverjar athugasemdir skal hann án tafar koma þeim á framfæri við leigusala.

Ef að íbúðinni fylgja heimilistæki umfram það sem skylt er, svo sem ísskápur, uppþvottavél, þvottavél og þurrkari, er viðhald þeirra alfarið á ábyrgð leigutaka, og ef þau bila getur leigutaki valið að skila þeim eða kosta viðgerð sjálfur. Leigusali ber ábyrgð á viðhaldi ofns, helluborðs og gufugleypis, en leigutaki ber ábyrgð á sturtubarka, handsturtu og salernissetu. Skemmdir sem verða á innréttingum og gólfefnum greiðir leigutaki fyrir ef ekki er um að ræða eðlilegt slit (t.d. brotnar hurðir, brotnir tenglar eða rifinn gólfdúk). Leigutaki skal sérstaklega gæta þess að húsgögn skemmi ekki gólfefni.

Aðilar skulu sameiginlega framkvæma lýsingu og úttekt á hinu leigða sem er undirrituð af þeim báðum. Úttekt þessi sem kostuð er af leigusala skal lögð til grundvallar í samskiptum aðila og við skil hins leigða. Við afhendingu verður leigutaka afhent handbók með upplýsingum um eignina, bæði er varðar umgengni og viðhald og ber leigutaka að kynna sér hana ítarlega.

6. gr.
Tryggingarfé
Til tryggingar bótakröfum leigusala vegna tjóns og skemmda á hinu leigða og annarra samningsbrota leigutaka skal leigutaki afhenda leigusala tryggingarfé samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 40 gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, sem nemur jafnvirði þriggja mánaða leigu eða kr. __________.-.

Leigusala er ávallt og einhliða heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vanskilaleigu, bæði á leigutímanum ef hann kýs og eftir að honum lýkur. Um varðveislu tryggingarfjárins, meðferð þess og ráðstöfun fer skv. áðurnefndum lagafyrirmælum.

7. gr.
Viðhald og skemmdir
Leigusali annast allt viðhald hins leigða, bæði utanhúss og innan. Sé um að ræða viðhald og viðgerðir umfram venjulegt slit skal leigutaki greiða sérstaklega fyrir það. Með vísan til 22. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 áskilur leigusali sér rétt þegar fram í sækir að krefja leigutaka um frekari kostnað vegna viðhalds á íbúðinni sjálfri.

Leigutaki skuldbindur sig til þess að bæta allt tjón á húsnæðinu sem kann að verða af völdum hans og fjölskyldu hans eða annarra sem eru á hans vegum.

Ef nauðsynlegt reynist að lagfæra húsnæðið á leigutímanum skal leigutaki rýma það strax svo viðgerð verði við komið og á hann ekki kröfur til leigulækkunar nema viðgerð standi yfir 7 daga eða lengur.

Allt viðhald skal framkvæmt þannig að það valdi sem minnstri truflun leigutaka.

8. gr.
Rekstur og umhirða sameignar
Leigutaki greiðir rafmagn vegna íbúðarinnar samkvæmt sérmæli.

Allan reksturskostnað sameignar, þ.m.t. rafmagns- og hitunarkostnað og að auki hitunarkostnað íbúðarinnar greiðir leigutaki sérstaklega til leigusala. Leigusali sér um alla sameiginlega umhirðu og rekstur húss og lóðar, þ.m.t. þrif sameignar, umhirðu lóðar og snjómokstur á bílastæðum o.fl. Til að mæta þessum kostnaði innheimtir leigusali hjá leigutaka, ásamt húsaleigunni, eins konar hússjóðsframlag, sem í upphafi leigutímans er kr. _____.-
Leigusali sér þannig um eftirfarandi: kynding íbúða og sameignar, rafmagn í sameign, þrif á sameign, þrif utanhúss, eftirlit og kostnaður við lyftu, sorptunnuskipti, þrif bílastæða, umhirða lóðar og eftirlit og umsjón með sameign. Leigutaki skal þó sjálfur sjá um að hreinsa snjó og ís af svölum við inngang íbúðar sinnar.

9. gr.
Umgengni leigutaka, aðgangur leigusala
Óheimilt er að nota húsnæðið á annan hátt en um er samið í leigusamningi. Leigutaka ber að ganga vel og snyrtilega um hið leigða hvort heldur íbúðina, sameiginleg húsrými og búnað og lóð. Hann skal gæta þess vel að valda öðrum leigutökum ekki ónæði og óþægindum.

Leigutaki skal annast um þrif og ræstingu á íbúðinni að öllu leyti. Er honum skylt að fara í hvívetna með húsnæðið á þann hátt sem samræmist viðteknum reglum og venjum um umgengni, hreinlæti og hollustuhætti.

Leigusali á með hæfilegum fyrirvara rétt til aðgangs að íbúðinni til eftirlits með ástandi hennar og meðferð. Einnig hefur leigusali heimild til að sýna íbúðina væntanlegum kaupanda eða nýjum leigutaka þó ekki lengur en tvær stundir á dag enda sé leigutaka tilkynnt um það með a.m.k. sólarhrings fyrirvara. Án samþykkis leigutaka er leigusala þó aldrei heimill aðgangur að hinu leigða húsnæði þegar leigutaki er ekki viðstaddur.

10. gr.
Afnot, bílastæði og framleiga
Það er alger forsenda af hálfu leigusala að í íbúðinni búi aðeins eðlilegur fjöldi einstaklinga miðað við stærð og gerð hennar. Brot gegn því telst veruleg vanefnd og varðar riftun.

Leigutaki hefur með neðangreindum takmörkunum rétt til að hagnýta sameiginleg bílastæði til að leggja þar einkabíl sínum að staðaldri og fyrir gesti sína í skemmri tíma. Að staðaldri má leigutaki ekki hafa þar fleiri en tvo bíla og alls ekki óskráðan bíl og stærri atvinnubíla eða tjaldvagna, báta, kerrur o.þ.h. Brot á þessum fyrirmælum geta varðað riftun.

Leigutaka er með öllu er óheimilt að framleigja eða framselja hið leigða húsnæði án samþykkis leigusala.

11. gr.
Vanefndir
Ef leigutaki stendur ekki í skilum með leigugreiðslur á réttum gjalddögum, fer illa með húsnæðið, brýtur alvarlega gegn húsreglum eða vanefnir samning þennan í öðrum verulegum atriðum, þá hefur hann fyrirgert leigurétti sínum og öðrum réttindum sínum samkvæmt samningi þessum og skal honum þá skylt að rýma húsnæðið þegar í stað eftir kröfu leigusala. Þetta á einnig við ef boðgreiðslusamningur er ekki virtur að fullu.

Að öðru leyti fer um riftunarrétt og vanefndarúrræði aðila eftir fyrirmælum XII. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994.

12. gr.
Vátryggingar
Leigusali kaupir húseigendatryggingu fyrir íbúðina og húsið í heild en leigutaki skuldbindur sig til að kaupa og halda í gildi innbústryggingu.

13. gr.
Skil húsnæðisins
Að leigutíma loknum skal leigutaki skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigutaki óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafar af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi.

Leigutaki skal skila íbúðinni tandurhreinni að leigutíma loknum í sama ástandi og hann tók við henni.

14. gr.
Úttekt á hinu leigða
Áður en íbúð er skilað, að jafnaði 3 dögum áður, skal fara fram úttekt á henni. Leigutaki ber óskoraða ábyrgð á því að íbúðinni sé skilað í því ástandi sem hún var við afhendingu utan eðlilegs slits.

Leigutaki greiðir kostnað við skilaúttekt, nú kr.18.000- og vegna silenderskipta, nú kr. 11.000.- eða samtals kr. 29.000.-. Þessar fjárhæðir geta breyst fyrirvaralaust og áskilur leigusali sér allan rétt í því efni.

Við skil íbúðar gilda eftirfarandi reglur:
Veggir skulu vera hreinir eða málaðir og engin för eftir nagla eða skemmdir á málningu. Dúkur þveginn og bónaður samkv. leiðbeiningum. Allt gler skal vera hreint og gluggar í lagi. Perur í lagi skulu vera í öllum ljósakúplum. Kostnaður við málningu ber leigutaki og skal hann hafa samráð við leigusala ef hann telur þörf á málningu og skal málningarvinna vera unnin í samráði við leigusala. Öll málningarvinna skal unnin af fagmönnum. Þrífa skal allar innihurðir og innréttingar að innan og utan með grænsápu eða öðru þvottaefni sem ekki skemmir innréttingar. Ekki má nota sterk sápuefni á innréttingar.
Í eldhúsi skulu allir skápar, eldavél og tæki vera hrein sem og flísar og hreingert á bak við ísskáp.
Í baðherbergi skulu hreinlætistæki vera hrein og kísill hreinsaður af vöskum, baði, sturtuklefa og flísum. Spegill pússaður og hreint á bak við þvottavélar.

Ef íbúð er í fullnægjandi og umsömdu ástandi við skil greiðir leigusali aðeins skilaúttekt og silenderskipti. Ef eitthvað þarf að laga, t.d. málningu, þrif eða gólfefni, , greiðist það af tryggingafé skv. 6. gr. samnings þessa.

Leigutaki er viðstaddur úttekt og ef hann unir henni ekki getur hann óskað eftir úttekt byggingafulltrúa.
15. gr.
Húsreglur
Leigusali setur leigutökum húsreglur sem hafa að geyma reglur um afnot og umgengni um íbúðir, sameign og lóð og stöðu leigutaka, réttindi þeirra og skyldur gagnvart hver öðrum og leigusala.

Þessar húsreglur, með þeim breytingum sem kunna að verða gerðar á þeim, eru óaðskiljanlegur hluti af leigusamningi þessum og brot á þeim geta leitt til riftunar á leigusamningi.

16. gr.
Almenn ákvæði
Um samskipti leigusala og leigutaka og um réttindi og skyldur hvors aðila um sig gilda að öðru leyti en í samningi þessum greinir og eftir því sem við geta átt ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 með síðari breytingum.

Samningur þessi er í þríriti og heldur hvor aðili eintaki en hið þriðja er á löggiltum skjalapappír og ætlað til þinglýsingar.

Öllu framangreindu til staðfestu rita aðilar nöfn sín undir samning þennan í viðurvist tveggja votta.

Reykjavík,    /     2010

Leigutaki:                                                                           Leigusali:

_______________________                                                 _______________________

Vottar að réttri dagsetningu, undirskrift og fjárræði aðila.:

________________________________________ kt.__________________

________________________________________ kt.__________________